Skyldan kallar

Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði ef ég hef einhverjar.  Bændur skuldbinda sig til þess að flytja ákveðna prósentu af íslensku lambakjöti til útlanda þar sem það selst á lægra verði en hér innanlands til þess væntanleg að hér verði minna framboð á umræddri afurð og þ.a.l. hægt að ná verðinu ennþá hærra upp.  Ég hvet fólk eindregið til þess að gera eins og Eyvindur og Halla forðum, brýna hnífana og vera sjálfum sér nægt um lambakjöt, nóg er af því meðfram þjóðvegum landsins.  Verði ykkur að góðu.
mbl.is Horfur eru á auknum útflutningi á lambakjöti á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amen

 

 

 

Ef Vatíkanið verndar mig

svo vakni ei hraða dýrið

mun seggur þessi signa sig

er sest hann undir stýrið


mbl.is Ógætilegur akstur er synd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næturvaktir og Bíórásin

Jæja nú er enn einni næturvaktinni að ljúka hjá mér sem betur fer.  Það er oft ósköp rólegt hjá mér og alltaf endar það einhvern veginn  á því að maður setur á Bíórásina hjá Stöð 2 og alltaf með sömu leiðindunum, þessi rás vægast sagt hundleiðinleg sömu C og D og E klassa myndirnar aftur og aftur.  Og þegar einni hörmunginni líkur og beðið er eftir annarri þá er leikin sömu 4 - 5 lögin og leikin hafa verið frá upphafi.  Má vera að ég sé full neikvæður núna enda búinn að vaka svolítið lengi, en ég hef oft fengið þessa tilfinningu áður svo ég læt þetta bara flakka.

Mér finnst það oft hjákátlegt þegar þessi tiltekna rás er notuð í auglýsingum í þeim tilgangi að trekkja að áhorfendur, svona svipað og að selja hjólhýsi út á það að það fylgi frír ruslapoki með.  Þeir hjá 365 mættu gjarnan lyfta standardinum hjá sér og sýna eitthvað annað en myndir á kolaports verði. 

En nú verð ég að hætta, það er að byrja mynd og ef ég horfi ekki á hana núna þá get ég ekki vælt yfir henni á morgun.

Svo sæl að sinni.


Kvæða bull

Datt í  hug að skjóta hér inn smá kvæði um það hvernig hlutirnir geta farið úrskeiðis hjá bestu mönum.  Vona að einhver hafi gaman af.

 

 

Gestur 

Hér kemur saga svo sárlega snjöll

að sögð verður varla með orðum.

Um mann sem að ákvað að arka á fjöll

og veiða eins og feður hans forðum.

Svo hefði hann endalaust alsnægtir á sínum borðum.

 

Hann keypti sér byssu og boga og skot

og buxur og veiðimanns vesti.

Stígvél ef hrakinn hann færi á flot

svo smurði hann sér brauðsneið í nesti.

Hér kemur sagan af veiðimanns mógúlnum Gesti.

 

 Veiðimanns stoltið í brjósti hans svall

af áliti því var að springa.

Að hann væri efalaust afburðasnjall

og fyrirmynd sannra Íslendinga.

Þá skoðun á sjálfum sér þurfti hann alls ekki að þvinga.

 

Hann arkaði daglangt af fjalli á fjall

af drápseðli bundinn í klafa.

Og hann sem að áður var afburðasnjall

í fyrsta sinn var núna í vafa.

Það var bara alls ekki kvikindi á fjöllum að hafa.

 

Þá barði hann augum í bláberjalaut

vorboðann ljúfa og góða.

Og án þess að hika, hann miðaði og skaut

hann skildi hafa eitthvað að sjóða.

Þá rann fyrir augu hans dauðadimm djöfulsins móða.

 

Ég söguna í mig af áfergju drakk

því endirinn er framar vonum.

Því sannreyndin var sú að hólkurinn sprakk

svo Lóan hún lógaði honum.

Hún lógaði einum af ísalands almestu sonum


Jóla hvað?

Rétt hjá Guðna vissulega er þetta flokknum að kenna, en eftir höfðinu dansa limirnir.  Jón einn sá ástæðu til að segja af sér hefði verið nær að öll forustan fylgdi fordæminu.  Henni hefur rækilega tekist að sýna fram á það að lýðræði er ákaflega illa séð og talið það til baga ef fólk hefur sjálfstæðar skoðanir.

Bitlingapólitík á engan tilverurétt.  Takið ábyrgð og fylgið formanninum ellegar lít ég svo á að þið séuð minni menn fyrir vikið.


mbl.is Innri samstaða framsóknarmanna brast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líffæraflakk

Var að lesa á Vísi.is niðurstöður skoðanakönnunar sem Reykjavík síðdegis gerði á viðhorfi hlustenda til þess hvort breyta ætti löggjöf þannig að allir væru líffæragjafar burtséð frá því hvort þeir gæfu samþykki eður ei.

Mér kemur þá í hug atburður sem átti sér stað fyrir nokkrum árum er fullorðinn maður sem ég þekki datt á höfuðið, nokkuð hátt fall niður á steingólf.  Nokkrum dögum eftir slysið hóuðu læknar í börn hins slasaða og tilkynntu að engin heilastarfsemi væri merkjanleg á þar til gerðum mælitækjum og óskuðu eftir því að fá að taka vélar sem heldu í honum lífi úr sambandi.  Börnin með óbylandi trú á læknavísindunum veittu leyfið með trega.  Að enn nokkrum dögum liðnum höfðu sömu læknar aftur samband við börnin og nú til að segja þeim að kallinn þrjóskaðist við að deyja og heilastarfsemi væri kominn í gang aftur.  Hinn slasaði var seinna útskrifaður af sjúkrahúsi að vísu ekki sami maður og fyrir slysið en þó við þokkalega heilsu.

Ég hef oft velt því fyrir mér síðan þegar líffæragjöf berst í tal, hvað ef kallinn hefði verið skráður líffæragjafi?  Hjartað hefði kannski farið til Svíþjóðar, lifrin til Danmerkur, lungun til Finnlands og restin af innihaldinu þangað sem þess væri þörf svo hefði mátt stoppa búkinn upp og breyta honum í t.d. vínskáp það var jú búið að hola hann að innan.

Nú er ekki svo að ég sé að tala á móti líffæragjöfum mín eru öll föl, vill bara vera viss um að ég sé örugglega dauður.  Amen


Áfallahjálp

Var að hlusta á fréttirnar á rúffinu, þar sem sagði skotglöðum Hnífsdælingi.  Þetta var svona dæmigerð semí æsifrétt sem lýsti viðbúnaði og atburðarás og allt gott um það að segja, enda sem  betur fer sjaldgæft að slíkir atburðir hendi hér á landi.

Það sem aftur á móti sló mig við þessa frétt var það að ÖLLUM bæjarbúum hafi verið boðin áfallahjálp í kjölfarið.  Hvernig erum við afkomendur norrænna víkinga að verða.  Það er svo komið að ekki má fugl drita á mann án þess að áfallahjálp þurfi og hafi lellan verið í stærri kantinum fást sjálfsagt tímabundnar örorkubætur út á það líka.  Er ekki eitthvað að?


Sjómennska

Jæja góðir hálsar.  Haldið þið að karlinn hafi ekki drifið sig á sjó í gær og það til að draga skötusels net.  Hafði ekki dregið net í yfir 20 ár en lét mig samt hafa það.  Nema hvað þarna bylltust skötuselirnir inn einn af öðrum og hver öðrum ljótari.  Fyrir þá sem ekki vita hvernig skötuselur lítur út er gott að ímynda sér að Ókindin og Tazmaníu djöfull hafi gamnað sér saman og afraksturinn orðið skötuselur.

Þrátt fyrir útlitsfötlun er skötuselurinn eitt mesta lostæti sem kemur úr hafinu og er það gott dæmi um það að það er innihaldið en ekki útlitið sem máli skiptir.  En sjóferðin var hin skemmtilegasta, aflinn alveg ágætur en mikið djö. er skrokkurinn aumur í dag, var alveg búinn að gleyma hvað þetta er mikið puð þegar ég sló til.

Bölvaði talsvert í hljóði á meðan við vorum að draga netin yfir því að hafa látið plata mig út í þetta og hét því að gera þetta aldrei aftur.  Var svo beðinn í gærkvöld að koma anna róður á mánudaginn og sagði....JÁ.  spurningin er því þessi " Er hægt að kaupa sér skamtímamynni ?"


Hellesens

Jæja þar kom að því að skipta þurfti um batterí í Cheney, enda er hann orðinn hálf tuskulegur að sjá.  Þetta er lítil aðgerð segir skrifstofan hans og þarf ekki að svæfa hann.  Setur reyndar að mér hálfgerðan hroll þegar ég reyni að ímynda mér hvar téðum rafhlöðum er troðið.

Væri ekki ráð að trekkja Bush upp í leiðinni, hann hlýtur að vera orðinn hálf niðurdreginn þessa dagana þar sem velflestu sem hann leggur fram er hafnað. 

Annars finnst mér tími til þess kominn að Cheney bjóði Bush með sér á skytterí, það myndi sjálfsagt gera heiminn miklu öruggari.Devil


mbl.is Skipta þarf um rafhlöður í Cheney
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég líka

Ég verð að játa það að ég bíð spenntur eftir því að bankaráð eða bara eitthvert ráð hækki launin mín en ekkert gerist Frown eins fyllist ég vonar og bíð spenntur við síman þegar ég heyri að einhver hafi fengið starfsloka samning þar sem ég tel að ég gæti hætt nánast hvaða starfi fyrir brot af þeim aurum sem yfirleitt um er rætt og hlít þ.a.l. að teljast mikið hagkvæmari kostur.

En að öllu gamni slepptu nú ætti Davíð að eiga fyrir almennilegri klippingu og afhjúpa þar með fyrir þjóðinni þessi mögnuðu eyru sem hann ku leyna undir lubbanum.


mbl.is Samþykkt að hækka laun seðlabankastjóra um 200.000 kr. á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Róbert Tómasson
Róbert Tómasson
er ekkert mannlegt óviðkomandi
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband