29.10.2008 | 14:16
Í MYNNINGU
Ástkær vinkona mín og lífsförunautur, Krónan er látin.
Ég man þegar ég eignaðist hana í fyrsta skipti, hún var ekki stór, en hún skein svo skært eins og gull í sólinni, og ég var stoltasti maður á jarðríki.
Hún breyttist mikið í gegnum tíðina, eina stundina var hún bústin og sælleg, hina næstu grindhoruð og svo lasburða að hún dugði varla til nokkurra verka en alltaf þótti mér vænt um hana því hún var mín. Við vorum ekki alltaf sammála, stundum sáumst við ekki dögum og vikum saman og ég verð að viðurkenna að oft skipti ég á henni og einhverju sem mig langaði meira í þá stundina, en alltaf kom hún aftur og aldrei lét hún mig gjalda flónsku minnar.
En undanfarið hefur hún ekki verið söm, hún hefur verið misnotuð af vondum mönnum sem ekki sáu fegurðina í henni heldur hugsuðu um eigin hagsmuni. Ég kvartaði oft til yfirvalda sem skelltu skolla eyrum við kvörtunum mínum og létu sem þeir heyrðu ekki neyðar óp minnar ástkæru krónu, þeir höfðu víst annað að hugsa um og ég var víst ekki nógu stór til þess að mark væri á mér tekið.
Stundum virtist hún vera að ná sér á strik, en svo féll hún aftur og aftur og undir það síðasta þegar bankarnir sem höfðu verið hennar annað heimili, lokuðu á hana dyrunum einn af öðrum og hún var hvergi velkomin, þá horfði ég á hana veslast upp og nánast hverfa fyrir augum mínum.
Læknarnir stóðu ráðþrota yfir þessum sjúkdómi sem hana hrjáði og þeirra eina lausn var að bæta við stýrivaxta sprauturnar sem að því er virtist höfðu þver öfug áhrif og á endanum gengu af henni dauðri.
Ástkær Króna, ég þakka þér samfylgdina á lífsleiðinni og bið þig að fyrirgefa að ég studdi þig ekki betur þegar þú þurftir á mér að halda. Hvíl þú í friði, þín verður sárt saknað.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.